Toggle Mobile

Saga Verslunarmannafélags Suðurnesja

Hinn 10. nóvember 1953 stofnuðu nokkrir starfsmenn byggingarfélagsins Metcalf, Hamilton, Smith, Beck, sem var með byggingarframkvæmdir á vegum hersins, Verslunar- og skrifstofumannafélag Suðurnesja og nutu við stofnunina aðstoðar ASÍ.  Næsta ár var ákveðið að sækja um aðild að ASÍ og árið 1956 var tilteknum manni falið að vinna að þessu verkefni.  Það gekk ekki eftir, félagið varð ekki aðili að ASÍ að sinni.  Félagið gerði samning við atvinnurekendur sumarið 1957.

Nafni félagsins var breytt í Verslunarmannafélag Suðurnesja á aðalfundi 15. mars 1965.  Um það leyti gengu allmargir utansvæðismenn, sem unnu á Keflavíkurflugvelli, í félagið og fjöldi félagsmanna jókst mikið.  Félagssvæðið tekur yfir Suðurnesin, Voga, Grindavík, Hafnir, Njarðvík, Keflavík, Sandgerði og Garðinn.  Þrír þessara þéttbýlisstaða, Hafnir, Keflavík og Njarðvík, hafa raunar sameinast í Reykjanesbæ þegar þetta er ritað.  Gunnar Árnason starfaði lengi fyrir félagið og telst vera fyrsti starfsmaður þess.  Verslunarmannafélag Suðurnesja opnaði skrifstofu 1972.  Skrifstofumenn félagsins hafa verið þessir: Agnes Jónsdóttir 1972-1979, Emma Einarsdóttir, Helga Albertsdóttir, Einar Júlíusson, Hólmfríður Ólafsdóttir frá 1977 og Sigrún Sigurgestsdóttir frá 1981. Bryndís Kjartansdóttir og Karlotta Sigurbjörnsdóttir voru ráðnar til félagsins 1998 og starfa þær enn.

Þau Emma, Helga og Einar störfuðu aðeins um skeið hjá skrifstofunni.  Eftirtaldir hafa verið formenn Verslunarmannafélags Suðurnesja og forvera þess:  Ingólfur Árnason 1953-1954, Guðmundur Ólafsson 1954-1955, Kristján Guðlaugsson 1955-1956 og 1957, Einar K. Magnússon 1956-1957, Steinþór Júlíusson 1960, Sigurður Sturluson 1964-1969, Karl Pálsson 1969-1980, Magnús Gíslason 1980-1992, Jóhann Geirdal frá 1992-1998 og Guðbrandur Einarsson frá 1998.
Upplýsingar vantar í aðalfundargerðir um skipan þeirra stjórna, sem kosnar voru á árunum 1958-1959 og 1961-1963.  Steinþór Júlíusson er þó sagður vera fráfarandi formaður í aðalfundagerð 1964 og kynni hann því að hafa verið formaður 1960-1964.